Ný rannsókn á fari þorskungviðis við landið

Merkingar benda til að far ungþorsks sé breytilegt eftir svæðum.
Þorskur í Húnaflóa er líklegri til ganga á hrygningarsvæði út af Suðvesturlandi en þorskur í Breiðafirði virðist fremur halda sig í firðinum. Þorskur í Húnaflóa syndir því langa vegalengd á móti straumi á hrygningarsvæðið meðan þorskur í Breiðafirði sýnir lítið far yfir á fjarlægari hrygningarsvæði.

Þorskur getur synt langar vegalengdir milli hrygningar-, uppeldis- og fæðusvæða. Tilgangurinn með slíkum langferðum er að vera á svæðum sem eru hvað hagstæðust með tilliti til hvar einstaklingurinn er staddur í lífsferlinum.
Fyrir ungviði er til dæmis best að vera á svæðum þar sem hægt er að leita skjóls fyrir afræningjum og hentug fæða er til staðar.

Til að fylgjast með ferðum fiska eru oft notuð merki sem fest eru á þá. Tilgangurinn með merkingum er að fylgjast með því hvar fiskarnir halda til og hvort og þá hvenær þeir leggja í langferðir.

Í rannsókn Kristins Sæmundssonar o.fl. sem var birt nýlega er skoðað far ungþorsks sem merktir voru innan fjarða allt frá Faxaflóa að Húnaflóa á árunum frá 1993 til 2003.

Niðurstöðurnar bentu til að þorskur er frekar staðbundinn meðan hann er ókynþroska og ungþorskur sem elst upp í mismunandi fjörðum blandast lítið saman.
Hins vegar þegar kynþroska er náð fer hann af uppeldissvæðum á hrygningarsvæði. Merkingarnar bentu ennfremur til að far hans væri breytilegt, en þorskur í Húnaflóa var líklegri til að færa sig yfir á hrygningarsvæði út af Suðvesturlandi heldur en þorskur í Breiðafirði sem hélt sig frekar nær Breiðafirði. Þorskur í Húnaflóa synti því langa vegalengd á móti straumi á hrygningarsvæðið meðan þorskur í Breiðafirði sýndi lítið far yfir á fjarlægari hrygningarsvæði.

DEILA