ICES veitir ráðgjöf um aflamark uppsjávarstofna fyrir árið 2021

Í dag 30. september veitti Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) ráð um veiðar ársins 2021 fyrir norsk-íslenska síld, makríl og kolmunna.

Norsk-íslensk vorgotssíld

ICES leggur til í samræmi við samþykkta aflareglu strandríkja að afli ársins 2021 verði ekki meiri en 651 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 526 þúsund tonn og er því um að ræða 24% hækkun í tillögum ráðsins um afla næsta árs.

Makríll

ICES leggur til, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið (MSY), að afli ársins 2021 verði ekki meiri en 852 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 922 þúsund tonn og því er um að ræða tæplega 8% lægri ráðgjöf nú. Það skýrist af bæði minnkandi hrygningarstofni og lægra mati á honum nú en á síðasta ári. Lækkun á ráðgjöf hefði orðið meiri ef ekki hefði komið til endurmat og hækkun á veiðihlutfalli viðmiðunarmarka sem ráðgjöfin byggir á.

Kolmunni

ICES leggur til, í samræmi við langtímanýtingarstefnu, að afli ársins 2021 verði ekki meiri en 929 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 1,2 milljón tonn og er því um að ræða 20% lækkun á ráðgjöf frá í fyrra. Ástæðan fyrir lækkun á aflamarki er minnkandi hrygningarstofn sökum lítillar nýliðunar síðustu fjögur ár.

DEILA