Handsótthreinsir innkallaður

Umhverfisstofnun vekur athygli á innköllun á vörunni Handsótthreinsi í 100 ml, 250 ml, 500 ml, 1 l og 2,5 l umbúðum sem hefur verið seld í verslunum og apótekum. Framleiðandi vörunnar er Mosey ehf.

Umhverfisstofnun barst ábending um að varan innihaldi efni sem ekki er ætlað til notkunar í sótthreinsivörur til að bera á húð.

Skoðun stofnunarinnar leiddi í ljós að varan inniheldur efnið pólýhexametýlen bígúaníð, sem er ekki samþykkt til notkunar í vörur til sótthreinsunar á húð skv. reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur.
Í framhaldi af því stöðvaði Umhverfisstofnun markaðssetningu vörunnar tímabundið og gerði kröfu um innköllun.

Áhættumat Efnastofnunar Evrópu á efninu leiddi í ljós að notkun þess í sótthreinsivörur á húð hefði í för með sér óviðunandi áhættu fyrir heilbrigði manna og umhverfi og uppfyllti því ekki kröfur 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra, sem er innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur.

Rétt er að taka fram að efnið er í mjög litlu magni í vörunni eða undir 0,05% og því er ekki talin ástæða fyrir neytendur að hafa sérstakar áhyggjur af því að hafa notað vöruna.
Auk þess skal tekið fram að sama vara í 50 ml umbúðum inniheldur ekki umrætt efni.

Mosey ehf. beinir því til neytenda sem keypt hafa vöruna að skila henni á næsta sölustað eða til Moseyjar ehf., Hrafnhólum 11, 800 Selfossi. Varan hefur verið boðin til sölu í Bónus, Húsasmiðjunni, Byko, Fjarðarkaupum, Reykjanes apóteki, Reykjavíkur apóteki, Apóteki Suðurnesja, Farmasíu, Málningarbúðinni Ísafirði, Góðum kosti, Skagfirðingabúð, Kaupfélagi Skagfirðinga, Slippfélaginu, Heimkaup, Skriðuklaustri, Lyfjaveri, Icewear, Kauptúni og Hagkaup.

DEILA