150 milljónum kr. úthlutað til íþrótta- og ungmennafélaga vegna COVID-19

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur tilkynnt um úthlutun sértækra styrkja til íþróttahreyfingarinnar til að mæta áhrifum Covid-19. Úthlutunin nemur rúmlega 150 milljónum kr. og kemur í kjölfar 300 milljóna kr. framlags ríkisins til íþróttahreyfingarinnar sem úthlutað var í maí.

„Margfeldisáhrif þessa stuðnings eru mikil fyrir fjölbreytt íþróttastarf í landinu. Íþrótta- og ungmennafélögin vítt og breitt um landið mikilvægu hlutverki, nú sem fyrr, við að efla lýðheilsu og stuðla að virkni iðkenda á öllum aldri,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

ÍSÍ skipaði vinnuhóp 25. mars sl. til að móta tillögur að skiptingu þeirra fjármuna sem renna frá ríkinu til íþróttahreyfingarinnar til að mæta áhrifum Covid-19. Þann 29. maí sl. voru síðan greiddar til 214 íþrótta- og ungmennafélaga tæplega 300 milljónir kr. í almennri aðgerð, í samræmi við tillögur vinnuhópsins. Þann 26. maí sl. var auglýst eftir umsóknum vegna sértækra aðgerða frá sambandsaðilum og íþrótta- og ungmennafélögum sem höfðu orðið fyrir tapi eða tekjufalli vegna viðburða sem hætt var við á vormánuðum, vegna Covid-19.

Aðeins eitt félag á Vestfjörðum fékk úthlutað að þessu sinn en það var Íþróttafélagið Vestri – Blakdeild sem fékk 360.000 kr.

Hæstu styrkina fengu Knattspyrnufélagið Valur 17.317.500, Keflavík íþrótta- og ungmennafélag – Körfuknattleiksdeild 6.600.000, Fimleikasamband Íslands – Eurogym 8.479.418, Hestamannafélagið Geysir 8.100.000 og Knattspyrnufélagið Haukar – Handknattleiksdeild 6.405.000.

DEILA