Vönduð stjórnsýsla eða ruslaraleg

Sigurði J. Hreinssyni bæjarfulltrúa Í – listans er heitt í hamsi varðandi vandaða stjórnsýslu í nýbirtri grein á bb.is og ræðir þar aðferðir við vandaða ákvarðanatöku. Sigurður vísar í orð Daníels Jakobssonar

„Grundvöllur faglegra ákvarðana er að allar upplýsingar í viðkomandi máli liggi fyrir, þannig er hægt að vega og meta alla kosti og galla og möguleg tækifæri og hættur samhliða endanlegri ákvörðun.“

Arndís Bára Ingimarsdóttir lögfræðingur rær á sömu mið í grein sinni á Eyjar.is

„Vönduð stjórnsýsla er ekki bara fögur orð og göfugt loforð í kosningabaráttu. Vönduð stjórnsýsla er fyrst og fremst að fara eftir lögum og reglum og sætta sig við að eðli málsins samkvæmt ber öllum sem starfa fyrir sveitarfélagið, hvort sem þeir eru kjörnir til þess eða ekki, að fara eftir og framfylgja lögunum. „

Rök yfirvalda fyrir sameiningu sveitarfélaga er, meðal annara, bætt stjórnsýsla og vandaðri ákvarðanataka.

Rammi allra ákvarðana sveitarstjórna er fjárhagsáætlun, eftirfylgni með henni sem lýkur svo í staðfestum ársreikningi sem í einu og öllu skal vera samhljóma fjárhagsáætlun með samþykktum viðaukum. Allar ákvarðanir skulu teknar fyrir opnum tjöldum og aðgengilegar íbúum.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarstjórnum að fjalla um og samþykkja ársreikninga fyrra árs fyrir 15. maí. Lausleg könnun bb.is á heimasíðum sveitarfélaga á Vestfjörðum leiðir í ljós að ekkert þeirra hefur lokið seinni umræðu um ársreikning fyrir bæði 2018 og 2019 fyrir lögbundin tímamörk. Aðeins Vesturbyggð tekst að skila báðum árum í maí. Strandabyggð, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur og Tálknafjarðarhreppur skila 2018 í maí og 2019 í júní. Reykhólahreppur skilar sínum ársreikningum 2018 og 2019 í júní. Kaldrananeshreppur tekur sér tíma fram í júlí að afgreiða sína ársreikninga en á heimsíðu Árneshrepps kemur ekki fram hvort umfjöllun um ársreikning 2019 sé lokið.

bryndis@bb.is

DEILA