Um göngur og réttir

Matvælastofnun hvetur landbúnaðarnefndir og/eða sveitarstjórnarfulltrúa til að huga að því hvernig verður staðið að sundurdrætti í réttum komandi hausts.

Sóttvarnayfirvöld hafa þegar gefið gaum að smitvörnum fólks og sett takmörk á aðgang óviðkomandi að réttum. Þannig munu réttir varla verða miklir mannfögnuðir í haust, þótt hefð sé fyrir slíku, og er fólk beðið um að virða það.

Færst hefur í vöxt að sveitarfélög setji upp rekstrarganga, ýmist varanlega eða tímabundna, til að auðvelda sundurdrátt í réttum og auka dýravelferð.
Matvælastofnun mælir með notkun ganga af þessu tagi og telur þá hafa marga kosti.
Með notkun þeirra verður sundurdráttur fljótlegri, sauðféð er rólegra og það er farið betur með það, því ekki þarf að taka á neinni kind.

Einnig auka þeir gæði afurða því alltaf er eitthvað um að marblettir sjáist á skrokkum sauðfjár sem kemur til slátrunar stuttu eftir réttir.

Þeir stafa oftast af því að gripið var í ull kindanna í því ati sem fylgir sundurdrætti með gamla laginu.

Hvað varðar smitvarnir búfjár má að sjálfsögðu ekki slaka neitt á klónni með þær, enn erum við að glíma við illvíga sjúkdóma, s.s. riðu og garnaveiki, og sem fyrr er mikilvægt að gæta þar fyllstu varúðar.

Tilkynna skal um kindur sem drepast í göngum eða finnast dauðar á afrétt.

DEILA