Tungudalsvirkjun í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp

Fyrstu hugmyndir um að virkja afrennslisvatnið úr Vestfjarðagöngum, sem rann út í Tunguá í Skutulsfirði, munu hafa kviknað fljótlega eftir að „fossinn opnaðist“ við gangagerðina árið 1993.
Þegar á því ári vann Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens greinargerð um þennan virkjunarkost fyrir Orkubú Vestfjarða.

Talið var að vatnsmagnið kynni að minnka þegar frá liði og þess vegna var það ekki fyrr en laust eftir aldamótin, þegar sýnt þótti að stöðugleiki væri kominn á rennslið, að skriður komst á málið.

Þá voru gerðar nákvæmari rannsóknir á vatnafari Tunguár, bæði með og án vatnsins úr jarðgöngunum. Önnur helstu gögn sem Orkubúið lét vinna voru Umfjöllun um náttúrufar og menningarminjar á framkvæmdasvæði rennslisvirkjunar í Tunguá í Skutulsfirði og Gróðurgreining í Tungudal vegna virkjunar í Tunguá. Báðar voru skýrslurnar unnar af Náttúrustofu Vestfjarða og gefnar út snemma árs 2004.

Skipulagsstofnun tilkynnti þá niðurstöðu vorið 2004, að samkvæmt ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri bygging 700 kW virkjunar í Tungudal ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Ísafjarðarbær er landeigandi á öllu virkjunarsvæðinu og lagði vatnsréttindin inn í Orkubúið við stofnun þess. Ekki var hægt að úthluta Orkubúinu lóð undir virkjunina nema gildandi skipulagi yrði breytt. Því ferli lauk með samþykkt Ísafjarðarbæjar á deiliskipulagi af svæðinu haustið 2004 og var þar m.a. um að ræða samþykkt á lóð og byggingarreit fyrir stöðvarhús ásamt aðkomu að lóðinni.

Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun til yfirferðar og hlaut þá meðferð sem skipulags- og byggingarlög mæla fyrir um og tók gildi í ársbyrjun 2005. Framkvæmdaleyfi var samþykkt í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar haustið 2005. Skipulag fyrir Tungudal var síðan endurskoðað vegna tilkomu virkjunarinnar. Í dalbotninum voru skipulagðir göngustígar sem tengjast virkjuninni og göngubrú yfir ána er sameiginleg fyrir gæslumenn stöðvarinnar og útivistarfólk.

Við hönnunina var lögð á það mikil áhersla, að útlit hússins og umhverfi stöðvarinnar félli sem best að landslagi og þeim þörfum sem fyrir voru, svo sem varðandi tjaldsvæði og útivist.

Verklegar framkvæmdir hófust sumarið 2005 en orkuframleiðsla í janúar 2006. Framkvæmdum lauk sumarið 2007. Vígsludagur Tungudalsvirkjunar var 26. ágúst 2007, en þann dag 30 árum fyrr var stofnsamningur um Orkubú Vestfjarða undirritaður.

Afl virkjunarinnar er 700 kW og árleg orkuvinnsla 5 GWh

DEILA