Tíðarfar í júlí

Veðurstofan hefur greint veðrið í júlí og borið saman við önnur ár og meðaltöl. Í ljós kemur að júlí var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum en þó nærri meðallagi áranna 1961 – 1990. Einna hlýjast var um landið suðaustanvert en kaldast um norðaustanvert. Vindur og úrkoma voru víðast nærri meðallagi.

Meðalhiti í Bolungarvík var 8,8 og er það 0,3 gráðum undir meðalári.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,8 stig á Egilsstaðaflugvelli þ.12. Mest frost í mánuðinum mældist -2,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 1. og í Miðfjarðarnesi þann 3. Á stöðinni á Dyngjujökli (þar fara þó ekki fram staðlaðar mælingar) fór frostið mest -9,5 stig þann 25. Ekki hefur sést meira frost á hitamæli á landinu í júlí. Frostnætur urðu alls 13 í mánuðinum. Er það óvenjulegt í júlí, en hins vegar var það aðeins á fáum stöðvum í senn, í ýmsum landshlutum. Júlílágmarkshitamet voru sett á allmörgum stöðvum.

Vindhraði á landsvísu var nærri meðallagi. Norðlægar áttir voru algengari en suðlægar, en vestlægar og austlægar skiptust á. Nokkuð hvasst varð þann 17. og 18. og féllu þá júlívindhraðamet á fáeinum stöðvum.

bryndis@bb.is

DEILA