Síðasti dagur strandveiða er í dag

Frá Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Frá og með morgundeginum 20. ágúst eru veiðarnar bannaðar, en þá hefur strandveiðiflotinn lokið veiðum á þeim aflaheimildum sem ætlaðar voru til veiðanna í ár.

Landssamband smábátaeigenda er ekki ánægt með að sjávarútvegsráðherra hafi ekki orðið við áskorun um að bæta við leyfilegt aflamagn umfram þau 720 tonn sem hann hefur bætt við áður útgefnar heimildir.

Í yfirlýsingu Landssambandsins segir:

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greindi frá því, í viðtali í 10 fréttum Sjónvarps í gærkveldi, að ekki yrði bætt við aflaheimildum til strandveiða. Ákvörðun ráðherra veldur gríðarlegum vonbrigðum. Á sjötta hundrað útgerða verða að hætta veiðum þegar þriðjungur er eftir af veiðidögum í ágúst.

Í viðtalinu kom fram að heimildir hans til að auka veiðiheimildir til strandveiða væru bundnar við 5,3% pottinn. Þar væru hins vegar engar veiðiheimildir á lausu og því yrði ekki bætt við.

Eins og fram hefur komið ákvað ráðherra með reglugerð þann 21. apríl sl. að skerða aflaviðmiðun til strandveiða. LS óskaði eftir að ráðherra leiðrétti reglugerðina og færði hana í sama horf og var 2019. Við því varð hann ekki.

Enn fremur er rétt að halda því til haga að LS óskaði eftir að ónýttar aflaheimildir frá strandveiðum 2019 bættust við heimildir þessa árs.

Því hafnaði ráðherra einnig og sagði lög ekki heimila færslu milli ára til strandveiða.

DEILA