Sérstökum hömlum aflétt á Hlíf á Ísafirði

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Öllum hömlum sem settar voru á íbúa á Hlíf á Ísafirði laugardagskvöldið var hefur nú verið aflétt og tekur afléttingin gildi strax. Þetta var ákveðið á fundi umdæmislæknis sóttvarna á Vestfjörðum sem haldinn var nú undir hádegið.

Laugardaginn 22. ágúst kom niðurstaða úr sýnatöku úr einstaklingi sem sýndi einkenni sem rímuðu við einkenni smits af völdum kórónaveirunnar. Niðurstaðan sýndi Covid-19 smit.

Í kjölfarið voru 19 settir í sóttkví, aðrir íbúar á Hlíf voru hvattir eindregið til að halda sig heima, þjónusta Ísafjarðarbæjar og heimahjúkrunar var takmörkuð og heimsóknir voru bannaðar. Á sunnudag fóru rúmlega 30 í skimun og á miðvikudagsmorgun ríflega 100, meðal annars starfsfólk verslana í bænum. Öll sýni, fyrir utan það fyrsta, reyndust neikvæð. Endurtekin sýni úr einstaklingnum hafa einnig verið neikvæð. Mótefnamælingar og raðgreining styðja þessa niðurstöðu.

„Þetta er auðvitað mikill léttir,“ segir Súsanna Björg Ástvaldsdóttir umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum. „Fólk hefur sýnt þessum aðgerðum skilning og verið með okkur í liði. Ég vil þakka fólkinu á Hlíf, aðstandendum þeirra, öllum sem komið hafa í skimanir og sýnatöku, starfsfólki heilbrigðisstofnunarinnar, lögreglunnar, Ísafjarðarbæjar og sóttvarnayfirvalda fyrir sunnan.“
„Þetta voru harðar aðgerðir en það var samhljómur um að fara í þær, gegn því að aflétta þeim strax og öll áhætta væri útilokuð. Sá tímapunktur er núna,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur verið í samstarfi við rakningateymi, starfandi sóttvarnalækni og COVID-göngudeild Landspítala
.
Eftir sem áður eru allir hvattir til að fylgja almennum leiðbeiningum yfirvalda sem lesa má um á covid.is, sérstaklega fólk í áhættuhópum.

DEILA