Nýr hópur meistaranema í Háskólasetrinu

Í vikunni hefur Háskólasetrið enn á ný tekið á móti nýjum hópi meistaranema í námsleiðunum Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði.
Það er sérstaklega ánægjulegt að taka á móti stórum og glæsilegum hópi nemend á þessum óvssutímum og afar gleðilegt að allir hafi þeir komist klakklaust til Íslands.

Það er svo ekki síður ánægulegt að geta hafið skólaárið með því sem næst hefðbundinni kennslu samkvæmt gildandi takmörkunum í háskólum.

Þótt önnin sé rétt að byrja hafa sumir nemendanna nú þegar dvalið á íslandi í nokkrar vikur, ýmist á ferðalagi eða við íslenskunám hér í Háskólasetrinu.
Nokkrir þeirra hafa einnig verið búsettir hér á landi í nokkur ár við í vinnu eða nám. Nemendurnir búa yfir fjölbreyttum námsbakgrunni og koma frá Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Írlandi, Þýskaland, Frakklandi, Ítalíu, Hollandi, Danmörku og Finnlandi.

Eins og við er að búast er nýnemavikann full af viðburðum og fyrirlestrum sem miða að því að undirbúa nemendur sem best fyrir komandi skólaár.
Kennsla hefst svo í næstu viku með stuttu inngangsnámskeiði um íslenskt samfélag og náttúru. Hluti af þessu námskeiði er árleg vettvangsferð um Ísafjarðardjúp þar sem komið verður við á Hesteyri í Hornstrandafriðlandinu.

Þegar COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst í vetur, einmitt þegar umsóknarferli nemenda stóð yfir, var mikil óvissa um afdrif komandi skólaárs og hvort yfir höfuð væri mögulegt að bjóða upp á staðbundið nám.

Það má því segja að móttaka þessa hóps sé sérstaklega ánægjuleg. Að sjálfsögðu er þó gert ráð fyrir að einhverjar aðlaganir þurfi að eiga sér stað í vetur og mögulega þarf að virkja plan-B og C á einhverjum tímapunkti til að halda uppi kennslu.

En nemendurnir eru mættir og tilbúnir í að sökkva sér í fræði um auðlindastjórnun og byggðaþróun og það er fyrir öllu.

Við hlökkum öll til komandi námsárs og samstarfsins við þennan glæsilega hóp af auðlinda- og byggðafræðingum framtíðarinnar segir í frétt frá Háskólasetrinu.

DEILA