Klausturhólar í Flatey

Húsið var byggt árið 1900 og var það flutt inn tilsniðið frá Noregi.

Klausturhólar er einlyft timburhús með krossreist þak, 9,51 m að lengd og 7,63 m á breidd, og með anddyri við austurstafn með lágt risþak, 2,59 m að lengd og 2,30 m á breidd.

Húsið stendur á háum steinhlöðnum múrhúðuðum kjallara.
Veggir eru klæddir bárujárni og frá þeim gengið með hornborðum og vindskeiðum. Þök eru bárujárnsklædd og þakgluggi er á báðum hliðum og reykháfur á mæni.

Á húsinu eru átta krosspóstagluggar með sex rúðum; þrír á hvorri hlið og tveir á vesturstafni. Tveir tveggja rúðu gluggar og sex rúðu gluggi með miðpósti eru á hvorri gaflhyrnu. Þriggja rúðu gluggi með þverpósti er að auki á austurstafni. Þrír kjallaragluggar eru á hvorri húshlið.

Á anddyri norðan megin er tveggja rúðu gluggi og fjögurra rúðu gluggi á austurstafni. Trétröppur eru að útidyrum á suðurhlið anddyris og fyrir þeim vængjahurðir á okum og spjaldsett innri hurð. Lágar kjallaradyr með okahurðum eru á austurstafni anddyris.

Inn af útidyrum er fordyri og baðherbergi við austurgafl. Í forstofu er stigi upp í ris og niður í kjallara. Herbergi er í suðausturhluta hússins, eldhús í suðvesturhluta og þrjú herbergi við norðurhlið. Upp af stiga er framloft, tvö herbergi við austurgafl og eitt að vestanverðu.

Í kjallara eru fjögur herbergi. Kjallaraveggir eru múrsléttaðir en milliveggir klæddir panelborðum og loft eru borðaklædd milli bita. Veggir á jarðhæð og efri hæð eru klæddir strikuðum panelborðum og loft panelklædd neðan á bita og súð panelklædd neðan á sperrur nema í norðausturherbergi, þar er borðaklæðning ofan á sperrum.

Friðað í A-flokki af menntamálaráðherra 11. febrúar 1976.

DEILA