Ísafjörður: Nýr samningur um rekstur líkamsræktar í vinnslu

Unnið er að samningi Ísafjarðarbæjar við Ísófit ehf. um rekstur líkamsræktar á Ísafirði og stefnt er að því að samningurinn muni liggja fyrir til samþykktar á næsta fundi bæjarráðs.

Minnisblað sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs um málið var kynnt á 1117. fundi bæjarráðs sem fram fór 17. ágúst sl.
Þar kemur fram að fyrr á þessu ári hafi verið óskað eftir hugmyndum vegna reksturs líkamsræktar á Ísafirði, en þá lá fyrir að Ísafjarðarbær myndi hætta rekstri á Studio Dan ehf.

Tvær tillögur bárust bæjarstjóra og af þeim þykir tillaga Ísófit ehf. falla best að hugmyndum Ísafjarðarbæjar um rekstur líkamsræktarstöðvar.

Lagt er upp með að starfsemin komi til móts við alla aldurshópa og tryggi góðan og breiðan grunn að heilsueflandi samfélagi.

Með samningnum er stefnt að því að aðkoma Ísafjarðarbæjar að líkamsræktarmálum á Ísafirði breytist í rekstrarstyrk, ásamt því að bjóða afnot af tækjum og búnaði í eigu Studio Dan ehf.

DEILA