Gagnaþon fyrir umhverfið hefst í dag

Gagnaþon fyrir umhverfið verður sett í dag í beinni útsendingu á vísi.is og facebook-síðu viðburðarins.

Gagnaþonið er nýsköpunarkeppni og er öllum opin þátttaka. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra opnar keppnina sem snýst um að finna nýjar lausnir á umhverfisvánni með því að nýta opinber gögn.

Þá heldur Vigfús Gíslason frá verkefnastofu um stafrænt Ísland erindi um framtíð opinna gagna hins opinbera og kynnir ný verkefni sem verkefnastofan vinnur að.

Gagnaþonið fer fram á netinu og stendur til 19.ágúst en verkefnið er fjármagnað af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar og er liður í innleiðingu nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og aðgerðaáætlunar um opinbera nýsköpun.

Þátttakendur þróa lausnir sem byggjast á opinberum gögnum og eru umhverfinu til góða. Hægt er að keppa í þremur flokkum og veitt verða verðlaun í hverjum flokki:

Besta gagnaverkefnið – 750.000 kr.
Endurbætt lausn – 450.000 kr.
Besta hugmyndin – 200.000 kr.

Umhverfisstofnun, Hagstofa Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Veðurstofa Íslands og Landmælingar Íslands leggja til gögn fyrir þátttakendur.

Úrslit verða kunngjörð miðvikudaginn 26.ágúst í beinni útsendingu þar sem tilkynnt verður hvaða lið hafa borið sigur úr býtum í hverjum flokki. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og rektorar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík veita verðlaunin.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands eru framkvæmdaraðilar verkefnisins ásamt öðrum opinberum stofnunum sem leggja fram gögn sem nýtast í gagnaþoninu.
Aðrir samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Félagsvísindasvið HÍ, forsætisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Hægt er að nálagast nánari upplýsingar um keppnina, sjá öll gagnasettin sem í boði eru og skrá sig á vefsíðunni hakkathon.island.is

DEILA