Dregur saman en langt í jafnræði

Eins og áður hefur komið fram á bb.is hefur Landsnet gefið út framkvæmdaáætlun fyrir næsta áratug, opinn fundur var á Ísafirði um áætlunina í byrjun júlí.

Fjórðungssamband Vestfjarða og Vestfjarðarstofa hafa nú gefið út umsögn um áætlunina og birt á heimasíðu Vestfjarðarstofu. Þar kemur fram að um verulegar úrbætur verður að ræða hvað varðar afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Hins vegar bendir Vestfjarðarstofa á að enn er ekki í augsýn jafnræði í stöðu Vestfjarða og annarra landshluta því framkvæmdir fyrir landið í heild munu áfram veita öðrum landshlutum samkeppnisforskot á Vestfirði og það þrátt fyrir þingsályktun Alþingis 26/148 þar sem Vestfirðir eiga að vera í forgangi í verkefnum er varða bætt afhendingaröryggi raforku. Vestfjarðarstofa telur að jafnræði landshluta verði ekki náð nema með tvöföldun Vesturlínu, frá Hrútatungu í Hrútafirði að Mjólká í Arnarfirði.

Þingsályktun 26/148

Þingsályktun númer 26/148 fjallar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku  og  Fjórðungssambandsið og Vestfjarðarstofa styðja þá ályktun í umsögn sinni. Í ályktuninni eru áhersluatriðin listuð upp með feitletrun þeirra atriða sem skipta Vestfirði mestu máli.

  1. Treysta skal flutningskerfið betur, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Skulu Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes vera sett í forgang.
  2. Skoða skal að hve miklu leyti megi nýta jarðstrengi með hagkvæmum hætti við uppbygginguna. Ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið.
  3. Gæta skal jafnvægis milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra áhrifa við uppbygginguna.
  4. Standa skal að uppbyggingunni á opinn og fyrirfram skilgreindan hátt innan ramma kerfisáætlunar, þar sem valkostagreiningar eru lagðar til grundvallar.
  5. Styrking og uppbygging á flutningskerfinu skal miða að því að auka afhendingaröryggi raforku á landsvísu með sérstakri áherslu á þau landsvæði sem búa við skert orkuöryggi. Þá skulu möguleikar til fjölbreyttrar atvinnusköpunar á landsvísu hafðir að leiðarljósi við uppbygginguna. Allir afhendingarstaðir í meginflutningskerfinu skulu árið 2030 vera komnir með tengingu sem tryggi að rof á stakri einingu valdi ekki takmörkunum á afhendingu eða afhendingarrofi. Allir afhendingarstaðir í svæðisbundnum hlutum flutningskerfisins skulu árið 2040 vera komnir með tengingu sem tryggi að rof á stakri einingu valdi ekki takmörkunum á afhendingu eða afhendingarrofi. Fram að þeim tíma skal leitast við að tryggja afhendingaröryggi fyrir svæðisbundin flutningskerfi með afli innan svæðis.
  6. Tryggja skal að flutningskerfið mæti þörfum fyrir aukin orkuskipti í samgöngum og haftengdri starfsemi, m.a. að því er varðar innviði fyrir rafbíla, notkun raforku í höfnum og raforku til fiskimjölsbræðslna.
  7. Tryggja skal raforkudreifingu og raforkuöryggi með tilliti til mögulegra náttúruhamfara.

Umsögn Vestfjarðarstofu og Fjórðungsambandsins er ýtarleg og áhugaverð og hana má nálgast hér.

bryndis@bb.is

DEILA