Verðlaun fyrir að veiða merkta laxfiska

Hér á landi eru laxar og silungar merktir með ýmis konar merkjum. Algengustu merkin eru örmerki, sem sett eru í trjónu laxaseiða á gönguseiðastigi og slöngumerki, sem sett eru undir bakugga á stálpuðum laxi eða silungi, en einnig hefur notkun útvarpsmerkja, rafkennimerkja og mælimerkja farið vaxandi.

Þegar um örmerkingu er að ræða þarf að skera snoppuna af laxinum við augun og setja í sérstaka merkjapoka úr plasti, sem liggja frammi í veiðihúsum þar sem við á. Pokana þarf einnig að fylla út og skila til lax- og silungveiðisviðs Fiskistofu, Dalshrauni 1, Hafnarfirði.
Oft hafa veiðifélög aðstöðu til að safna saman slíkum merkjapokum í frysti og skila þeim til Fiskistofu í lok sumars.

Lykillinn að því að fiskmerkingar nái tilætluðum árangri er að stangaveiðimanna og forsvarsmanna veiðifélaga taki eftir því hvort fiskur er merktur. Veiðimenn þurfa að grannskoða fiskinn, með tilliti til útlits, útvortis merkinga, uggaklippinga og almenns ástands á uggum. Klipptur veiðiuggi er vísbending um örmerki í trjónu laxins en trosnaðir eða eyddir uggar geta verið vísbending um að fiskurinn hafi sloppið úr eldiskví. Veiðimenn eru hvattir til að vera á tilkynna um það til Fiskistofu eða Hafrannsóknastofnunar ef grunur er um að eldisfiskur hafi veiðist, en slíkt má staðfesta með erfðagreiningu á vefjasýni.

Í byrjun júní voru dregin út verðlaun vegna skila á merkjum úr lax- og silungsveiði á árinu 2019 en verðlaunahafarnir voru dregnir út úr hópi 86 aðila, sem skilað höfðu örmerkjum eða öðrum fiskmerkjum úr ýmsum veiðiám til lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu á því ári. Slík verðlaun hafa verið veitt í gegnum tíðina og virðist það almennt hafa ýtt undir það að veiðimenn skili inn merkjum.

Eftirfarandi 3 aðilar hlutu verðlaunin að þessu sinni:

Stefán Hallur Jónsson, Gjafabréf (30.000 kr.) hjá Veiðihorninu og flugubox. Hrygna, 58 cm, veidd 8. júlí 2019 í Elliðaám.
Guðmundur Marinó Guðmundsson, Gjafabréf (15.000 kr.) hjá Veiðihorninu og flugubox. Hrygna, 60 cm, veidd 22. júní 2019 í Elliðaám.
Magnús Axel Hansen, Gjafabréf (10.000 kr.) hjá Veiðihorninu og flugubox. Hrygna, 57 cm, veidd 23. júlí 2019 í Affalli.

DEILA