Vegagerðin býður út vegagerð á Dynjandisheiði

Vegagerðin óskar eftir tilboðum í nýbyggingu Vestfjarðavegar (60) á um 10 km kafla.

Verkið skiptist í tvo kafla. Annars vegar um 5,7 km langan kafla við Þverdalsá (vegkafli 60-35) og hins vegar um 4,3 km langan kafla fyrir Meðalnes (vegkafli 60-38).

Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2021.

Útboðsgögn eru aðgengileg og verða afhent í rafræna útboðskerfinu TendSign frá og með mánudeginum 20. júlí 2020 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 18. ágúst 2020.

Lagður verður á næstu árum 35-40 km langur vegur sem nær frá Vatnsfirði að Mjólká yfir Dynjandisheiðina og nýr Bíldudalsvegur verður liðlega 28 km langur. Hann kemur í staðinn fyrir rúmlega 29 km langan veg sem liggur frá vegamótum við Flugvallarveg við Bíldudalsflugvöll upp á Norðdalsfjall og á Vestfjarðaveg rétt norðan Helluskarðs.

Vegarkaflarnir sem eru tilbúnir eru að sögn Guðmundar Vals Guðmundssonar framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar annars vegar frá Flókalundi upp á heiðina, um 6 – 7 km langur vegur með svipaðri veglínu og nú er og hins vegar er það vegur fyrir Meðalnesið sem er milli Dynjandisvogsins og Borgarfjarðar.

Þar mun hin nýja veglína liggja með sjónum í stað þess að vera ofar í hlíðinni. Veglínan á þessum köflum er það svipuð núverandi veglínu að ekki þarf breytingu á skipulagi sveitarfélaganna, sem eru Ísafjarðarbær og Vesturbyggð.

DEILA