Úthafsrækjuleiðangri lokið

Lokið er 17 daga leiðangri á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni.

Aðalmarkmið leiðangursins var að skoða útbreiðslu og magn rækju í úthafinu og við Eldey. Alls voru teknar 97 stöðvar í stofnmælingunni.
Gögnin verða notuð til að meta stofnstærð rækjustofna á þessum svæðum. Úthafsrækjusvæðið, fyrir norðan og norðaustan landið, hefur verið kannað árlega með sambærilegum hætti frá árinu 1987 að undanskildu árinu 2019.

Í leiðangrinum voru einnig merktir tæplega 600 þorskar fyrir austan Ísland og er því búið að merkja tæplega 3000 þorska í ár en fyrr á árinu voru þorskar merktir fyrir sunnan og vestan land.

Í mars 2019 hófust þorskmerkingar aftur eftir nokkuð hlé en þá var þorskur merktur út af Vestfjörðum, fyrir norðan land, í Arnarfirði og í Ísafjarðardjúpi.

Leiðangursstjóri var Ingibjörg G. Jónsdóttir og skipstjóri Magnús Arinbjarnarson.

DEILA