Rebbi fær aukna vernd

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Lögin voru endurskoðuð í samræmi við ákvæði í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Við vinnslu frumvarpsdraganna var m.a. horft til tillagna í skýrslu nefndar um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra, auk þess sem haft var samráð við ýmsar stofnanir og áhuga- og hagsmunasamtök.

Í frumvarpsdrögunum þar sem fjallað er um refi segir að óheimilt verði að eyðileggja greni. Ekki má láta hunda hlaupa um á greni á grenjatímanum né hafa þar óþarfa umgang.

Sveitarstjórnir skulu halda skrá yfir öll þekkt greni í sínu umdæmi ásamt lýsingu á þeim og skulu afrit af skránum varðveitt hjá Umhverfisstofnun.

Þá getur ráðherra ákveðið, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, að ef nauðsynlegt sé að láta veiða refi til þess að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum, sbr. 7. gr., sé sveitarstjórn skylt að ráða kunnáttumann til grenjavinnslu og skal hann hafa með sér aðstoðarmann.

Þar sem Umhverfisstofnun og sveitarstjórn þykir betur henta má skipuleggja refaveiðar að vetrarlagi í stað grenjavinnslu og fela þá skotmanni með sama hætti framkvæmdina.

Eigi fleiri sveitarfélög sameiginlegt upprekstrarland skulu sveitarstjórnir fela stjórn viðkomandi upprekstrar- eða fjallskilafélags umsjón refaveiða samkvæmt þessari málsgrein.

Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. mega bændur og æðarræktendur, eða aðilar á þeirra vegum, skjóta refi sem búfénaði eða æðarvarpi stafar hætta af.

Skal viðkomandi tilkynna skotmönnum, sbr. 2. mgr., um slíka veiði svo fljótt sem auðið er.

DEILA