Námskeið í að byggja landnámsskála

Fornminjafélag Súgandafjarðar í samstarfi við Kristínu Auði Kelddal Elíasdóttir hleðslumann og skrúðgarðyrkjumeistara mun standa fyrir námskeiði í hleðslu með torfi og grjóti dagana 4.-6. ágúst í Botni í Súgandafirði.

Námskeiðið er fyrsti hluti af byggingu á landnámsskála sem verður tileinkaður Hallvarði súganda landnámsmanni í Súgandafirði. Hann var teiknaður af arkitektastofunni Argos sem m.a. teiknaði skálann á Eiríksstöðum og í Brattahlíð á Grænlandi. Skálinn er tilgátuhús byggt á fornleifauppgreftri á Grélutóftum í Arnarfirði.

Markmið byggingarinnar er m.a. að kenna handbragðið og búa til hús í anda landnema Íslands og heiðra sögu og byggingararf þjóðarinnar.

Síðasta sumar var lokið við jarðvegsskipti og byrjað á veggjum skálans sem eru hlaðnir úr klömbruskornu torfi. Einnig var byrjað á hleðslu á grjótgarði í kringum skálann.

Byggingin er unnin í þremur hlutum og í sumar verður stefnt að því að ljúka við fyrsta hlutann þ.e. að hlaða veggi skálans úr klömbru og hlaða hálfan grjótvegg í kringum skálann. Í öðrum hluta verkefnisins sem verður á næsta ári verður hafist handa við að smíða grindina sem heldur uppi þakinu og loka húsinu.
Í þriðja hlutanum verður farið í að klára bekki, langeld, rúmstæði og annað sem tilheyrði.

Á námskeiðinu verður m.a. kennt:
• Hvernig á að velja mýri til að taka torf úr?
• Hvernig á að stinga klömbru úr mýri?
• Hvernig er hlaðið með klömbru?
• Hvernig á að velja steina í hleðslu?
• Hvernig á að hlaða vegg með og án strengs/torfu?

Verð fyrir námskeiðið er kr. 25.000. Ekki er innifalinn matur eða hugsanleg gisting. Enn eru fáein pláss laus á námskeiðinu og geta áhugasamir hafi samband við Eyþór Eðvarðsson í eythor@thekkingarmidlun.is eða í síma 892 1987.

Fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

DEILA