Landssamband smábátaeigenda ráðlagði sjávarútvegsráðherra að leyfa meiri þorskveiði

Landssamband smábátaeigenda fundaði með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sl. fimmtudag 2. júlí. Þar kynnti LS tillögu sína um heildarafla í þorski á næsta fiskveiðiári, að hann yrði 272 þúsund tonn.

LS ráðlagði ráðherra að fallast ekki á tillögu Hafrannsóknastofnunar um að leyfilegur heildarafli í þorski yrði 256,6 þúsund tonn, skerðng um tæp 6% – um 16 þúsund tonn.
Rök Hafró fyrir nauðsyn þess væru ekki nægilega traust til að hægt væri að fara eftir þeim.

Í kynningu LS kom fram að ekki léki vafi á að þorskstofninn stæði sterkt.
Það sýndi sig best á að stórir hrygningarstofnar undanfarinna ára hefðu skilað af sér 7 árgöngum þar sem fjöldi 3 ára nýliða væri bæði umfram meðaltal síðasta áratugs og aldarfjórðungs.

LS gagnrýndi þá ákvörðun Hafró að breyta forsendum fyrir útreikningi á veiði- og hrygningarstofni, að nota vísitölur 1 til 14 ára þorsk í stofnmatið í stað 1 til 10 ára eins gert hefur verið.

Einkennilegt væri að stofnunin kæmist upp með slíkt inngrip í aflareglu, ekki síst þegar hún er á síðasta ári. Endurskoðun hennar stæði yfir og drög að nýrri væri í smíðum. Rétt væri að ráðherra mundi ekki fallast á slík vinnubrögð, hvað þá að taka öll árin inn á sama tíma.

Ráðherra ákvað degi eftir kynningu LS að fara að ráðgjöf Hafró í einu og öllu.

DEILA