Flak á Patreksfirði

FLAK er listhneigt samkomuhús og sjávarfangssjoppa í gömlu verbúðinni við Patreksfjarðarhöfn.

Í sumar er þar fyrsta ljósmyndasýning FLAKs í sýningarrýminu FRYSTI.

Frítt er fyrir alla gesti á meðan sýning stendur yfir.

Á sýningunni ,,Af láði og legi“ eru sjávartengdar svipmyndir frá Patreksfirði teknar um miðbik 20. aldar.

Myndirnar eru fengnar frá Ljósmyndasafni V-Barðastrandarsýslu en endurunnar og prentaðar af Gígju Skjaldardóttur sem einnig sér um sýningarstjórn.

Patreksfirðingar lifa í nánum tengslum við náttúruna, enda blasir við íbúum fjöll, fjara og mikilfengleg náttúra hvert sem augað eygir. Nándin við hafið hefur frá upphafi byggðar á Patreksfirði haft gríðarleg áhrif á mannlífið, ekki einungis vegna þeirra afurða sem það hefur fært okkur heldur einnig þeirrar mikilfenglegu fegurðar sem hafið býr yfir.

Myndefni sýningarinnar leyfir áhorfandanum að skyggnast inn í líf og umhverfi Patreksfirðinga í kringum miðja 20. öld þar sem tengslin við sjóinn eru svo greinileg.

DEILA