Matvælastofnun vekur athygli neytenda á innköllun á fæðubótarefninu Prótis Liðir (120 og 240 hylki) frá Prótis á Sauðárkróki vegna hráefnis (sæbjúgnadufts frá Kína) sem ekki hefur fengið innflutningsleyfi Matvælastofnunar.
Fyrirtækið hefur hafið innköllun með hjálp Parlogis ehf. sem sér um dreifingu vörunnar, í samráði við Matvælastofnun.
Viðskiptavinum sem hafa keypt tilgreinda vöru er bent á að farga eða skila henni til þeirrar verslunar þar sem hún var keypt gegn endurgreiðslu.
Þá hefur Matvælastofnun einnig varað við neyslu á ABC Jelly mini cups vegna köfnunarhættu.
Hlaupin innihalda hleypiefnið E-410 karbógúmmí sem er mjög seigt.
Stórir sælgætisbitar geta valdið köfnun. Fyrirtækin sem flytja inn þessar vörur eru að innkalla þær í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar-og Kópavogssvæðis.
Matvælastofnun fékk upplýsingar um vörurnar í gegnum RASFF hraðviðvörunarkerfi Evrópu um hættuleg matvæli og fóður á markaði og upplýsti heilbrigðiseftirlitið.