Þátttaka í Áttavitanum fer mjög vel af stað

Á rúmri viku hafa um 20% þeirra sem boðin hefur verið þátttaka í rannsókn Krabbameinsfélagsins, Áttavitanum, tekið þátt. Rannsóknin miðar að því að kortleggja reynslu þeirra sem greinst hafa með krabbamein af greiningar- og meðferðarferlinu. Niðurstöðurnar verða nýttar til að vekja athygli á hvar úrbóta er þörf.

Rannsóknin hófst 8. júní síðastliðinn þegar boðsbréf voru send til tæplega 5000 einstaklinga sem greindust með krabbamein á árunum 2015 til 2019. Hópurinn var beðinn um að svara rafrænum spurningalista um greiningar- og meðferðarferli meðal annars um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, aðstoð og stuðning frá aðstandendum, aðra sjúkdóma, stuðning og ráðgjöf í meðferð, atvinnu og fjárhag í veikindum, heildarupplifun af þjónustu í heilbrigðiskerfinu og líkamlega og andlega líðan . Rannsóknin er unnin að fyrirmynd danska krabbameinsfélagsins sem hefur lagt sambærilegar spurningar fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein fjórum sinnum frá árinu 2011.

Tæplega 1000 manns hafa nú skráð sig í rannsóknina og í dag verður þeim sem enn hafa ekki skráð sig send textaskilaboð til að ítreka boð um þátttöku.

Undirbúningur rannsóknarinnar hefur tekið um tvö ár og margir samstarfsaðilar leggja Krabbameinsfélaginu lið við rannsóknina meðal annars til að lágmarka kostnað sem fellur til vegna rafrænna undirskrifta.

DEILA