Strandveiðarnar í maí

Fiskistofa hefur tekið saman ýmsar upplýsingar um strandveiðarnar í maímánuði og borið þær saman við fyrra ár.

Heldur fleiri bátar voru á veiðum í maí og aflinn reyndist um 130 tonnum meiri en á sama tíma í fyrra. Athygli vekur að um 30 fleiri bátar en í fyrra stunduðu strandveiðar í maí á svæði D. Af 590 bátum sem fengu strandveiðileyfi í maí voru 133 sem ekki höfðu stundað neinar aðrar veiðar á fiskveiðiárinu.

Þegar strandveiðibátar ársins 2019 eru skoðaðir kemur í ljós að þeir stunda töluverðar veiðar að hausti og svo aftur nú í vor fyrir strandveiðitímabilið en lítið er um að þeir stundi sjóinn frá nóvember og fram í mars.
Fjöldi veiðileyfa og skipting eftir svæðum

Í maímánuði voru 590 strandveiðileyfi gefin út hjá Fiskistofu.

Alls voru 224 leyfi gefin út á A svæði, 110 á B svæði, 96 á C svæði og 160 á D svæði.

Á sama tíma í fyrra höfðu 522 bátar fengið strandveiðileyfi.

Þar af voru 208 á A svæði, 97 á B svæði, 88 á C svæði og 129 á D svæði.

Af bátunum 590 sem fengu leyfi í maí stunduðu 535 bátar veiðar og lönduðu alls 3.833 sinnum.

Samtals 158 bátar lönduðu 10 sinnum eða oftar.

Heldur færri bátar, eða 471, stunduðu veiðar í maímánuði í fyrra og lönduðu alls 3.731 sinni. Í maí í fyrra höfðu 184 bátar landað 10 sinnum eða oftar.

Tveir bátar hættu á strandveiðum um mánaðarmótin maí/júní og fluttu sig yfir í sinn fyrri flokk.

Aflahæstu hafnir
Í maí hafði mestum afla verið landað á Patreksfirði, eða 238.189 kg í 335 löndunum en á sama tíma í fyrra var einnig landað mest á Patreksfirði, 218.633 kg í 309 löndunum.

DEILA