Steinshús

Í mörg ár var unnið að því að endurbyggja samkomuhúsið á Nauteyri, sem eyðilagðist í eldi árið 2002, og breyta því í safn og fræðimannasetur til minningar um skáldið Stein Steinarr.
Það er sjálfseignarstofnunin Steinshús ses. sem annaðist allar framkvæmdir á staðnum. Stærð Steinshúss er um 150 m² og skiptist þannig að íbúðarhluti er um 50 m² og safnhluti um 100 m².

Framkvæmdum við endurgerð byggingarinnar er nú lokið. Safnið var opnað með viðhöfn þann 15. ágúst 2015 og veitingarekstur hófst í Steinshúsi í lok maí 2016. Opið verður frá þeim tíma og fram í byrjun september ár hvert.

Á sýningunni sem opnuð var í Steinshúsi 15. ágúst 2015 er fjallað um helstu æviatriði Steins Steinarr — uppruna skáldsins við Djúp, hreppaflutninga í Saurbæ, fyrstu kynni af skáldskap hjá Stefáni frá Hvítadal, nám í Dölum hjá Jóhannesi úr Kötlum, fyrstu skáldskapartilraunir, námsdvöl að Núpi, lausamennsku í vinnu, útgáfur ljóða, upphaflega gerð Tímans og vatnsins, kynni Steins og Ásthildar Björnsdóttur, ferðalög Steins, áhrif hans á ungskáld, síðustu ár hans og ýmislegt fleira.

Í Steinshúsi er opin veitingastofa í þrjá mánuði yfir sumartímann. Á matseðlinum er kjötsúpa, gæðakaffi, heitt súkkulaði, heimabakað brauð, kökur og vöfflur. Hægt er að versla sultur, handverk, sápur og krem úr héraði á staðnum.

Opið er frá kl. tíu á morgnana til átta á kvöldin alla daga vikunnar frá 3. júní til 1. september.

DEILA