Ísafjarðarbær og Súðavík semja um félagsþjónustu

Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, og Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, undirrituðu í gær samning um að sveitarfélögin skuli standa sameiginlega að sérfræðiráðgjöf, vinnslu mála og stjórnun í félagsþjónustu.

Samningurinn varðar meðal annars fjárhagsaðstoð, móttöku flóttamanna, félagslega heimaþjónustu og liðveislu, ferðaþjónustu aldraðra og fatlaðra og fleiri þætti félagsþjónustu.

Í samningnum er kveðið á um að Ísafjarðarbær veiti íbúum í Súðavíkurhreppi félagslega ráðgjöf og að hreppurinn fái þjónustu í formi sérfræðiráðgjafar, vinnslu mála og stjórnunar.

Súðavíkurhreppur greiðir hlutfallslega kostnað af rekstri skrifstofu velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar miðað við íbúafjölda.

Súðavíkurhreppur heldur þeim stöðugildum sem verið hafa hjá sveitarfélaginu á sviði félagsþjónustu, s.s. í liðveislu, heimaþjónustu og félagsstarfi aldraðra.

Súðavíkurhreppur var áður í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað um félagsþjónustu en sagði þeim samningi upp á síðasta ári.

DEILA