360 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra

Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 360 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Styrkir voru veittir til 24 verkefna. Um 250 milljónir króna renna til verkefna sem bæta munu aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum og laga aðstæður á heimilunum að viðmiðum ráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila.

Önnur verkefni snúast um smærri viðhaldsverkefni og endurbætur á húsnæði hjúkrunarheimila víðsvegar um landið.

Hæstu framlögin renna til til hjúkrunarheimilisins Áss í Hveragerði, Hrafnistu í Hafnarfirði og Dalbæjar á Dalvík.

Framlagið til Áss nemur um 100 milljónum króna vegna uppbyggingar á nýjum matsal og breytinga á eldhúsi, Hrafnista í Hafnarfirði fær tæpar 100 milljónir króna til endurbóta á einstaklingsrýmum og hreinlætisaðstöðu og Dalbær á Dalvík fær rúmar 60 milljónir króna til viðgerða- og viðhalds.

Styrkirnir eru veittir í samræmi við tillögur stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra til ráðherra.

Engum styrkjum var úthlutað til framkvæmda á Vestfjörðum að þessu sinni.