Vesturbyggð býður tré í ættleiðingu

Hafin er vinna við ofan­flóða­varnir fyrir ofan Mýra, Hóla og Urðar­götu á Patreks­firði, og hluti af þeirri vinnu felst í að færa lægstu trén í hlíð­inni á önnur svæði til að stuðla að því að þau geti haldið áfram að vaxa í Vest­firsku lofti.

Stærð þeirra trjáa sem fyrir­hugað er að flytja er um 2,5-3 metra hæð og lægri.

Einn af þeim möguleikum sem unnið er með, er að aðstoða fólk sem hefur áhuga á að koma þessum trjám í fóstur á örugg svæði, eða setja þessi tré í eða við garða til að flýta fyrir skjólmyndun.

Ef einstaklingar eða fyrirtæki hafa áhuga á að fá tré er best að setja sig í samband við Geir Gestsson, sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs.

Unnið verður í því að staðsetja tré með rótarkerfi við hreppsgirðinguna sem staðsett er við endann á Mýrum og munu aðilar geta sótt tré þangað.

DEILA