Hertum aðgerðum á norðanverðum Vestfjörðum aflétt í dag 11. maí

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur ákveðið, í samráði við sóttvarnalækni, að aflétta aðgerðunum þann 11. maí nk. og þannig munu Vestfirðir fylgja landinu öllu hvað varðar reglur og tilmæli sóttvarnalæknis til að hefta smitleiðir.

Í tilkynningu Almannavarna á Vestfjörðum segir einnig:

Þrátt fyrir að faraldurinn hafi komið hart niður á Vestfirðingum hafa einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir staðið sig vel.

Mörg fyrirtæki og einstaklingar hafa þurft að draga úr starfsemi sinni eða gera aðrar ráðstafanir til að fara að fyrirmælum yfirvalda. Þá er það síður en svo auðvelt að loka skólum, hvorki fyrir nemendur, foreldra eða starfsfólk þessara stofnana. Sama á við um íþrótta-, tómstunda og æskulýðsstarf.

Þá hefur reynt verulega á þá einstaklinga sem hafa notið aðstoðar félagsþjónustunnar, sem og allt starfsfólk þessara stofnana sveitarfélaganna.

Aðgerðastjórn almannavarna er vel kunnugt um að slíkt hefur hvorki verið einfalt eða auðvelt. En svo virðist sem þetta hafi allt tekist með útsjónarsemi og samstilltu átaki. Fyrir þetta ber að þakka.

Við höfum lært margt þessar undanfarnar vikur, að takast á við heimsfaraldur. En ekki síður höfum við vonandi lært að meta betur frelsið og þau lífsgæði sem við búum blessunarlega við alla jafna.

Heimsfaraldurinn er ekki búinn og við þurfum enn að vera vel á varðbergi og fara eftir þeim leiðbeiningum sem yfirvöld senda frá sér hverju sinni. Við þurfum að vera viðbúin því að þessi veira geri vart við sig aftur. Við erum þá reynslunni ríkari eftir síðustu vikurnar.

Enn skal minnt á að allir þeir sem finna fyrir flensueinkennum skulu halda sig heima og hafa samband við sína heilsugæslustöð og þar mun læknir eða þar til bær heilbrigðisstarfsmaður ákveða sýnatöku.

DEILA