Alþingi: Halla Signý gagnrýnir sjávarútvegsráðherra

Á Alþingi í gær kom fram hörð gagnrýni á störf sjávarútvegsráðherra frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur þingmanni Framsóknarflokksins.

Í umræðum um störf þingsins sagði hún:

„Virðulegi forseti. Nú hafa grásleppuveiðar verið stöðvaðar rétt sex vikum eftir að þær hófust. Í upphafi hljóðaði veiðiráðgjöf Hafró upp á 4.600 tonn og því hefur verið náð enda mokveiði við norðan- og austanvert landið.
Sjómenn eru á því að nokkuð meira sé af grásleppunni en talið er og kalla eftir að ráðgjöfin verði endurmetin.

Þeir færa nokkur rök fyrir því að forsendur fyrir ráðgjöfinni séu gallaðar. Ekki ætla ég að fella dóm yfir því hér en veiðitölur þessar vikur gefa fulla ástæðu til að staldra við og endurmeta stöðuna. Grásleppuveiði hefur verið stunduð víða um land og er það áberandi að þessar veiðar eru orðnar stór þáttur í útgerð á mörgum stöðum og halda sér betur í veikari byggðum eins og á Ströndum, í Búðardal og á Brjánslæk svo einhver svæði séu nefnd.

Þessar veiðar voru ekki hafnar núna við innanverðan Breiðafjörð og í Stykkishólmi biðu um 20 útgerðir eftir að opnað yrði á svæðið. Nú á að opna það svæði eftir 20. maí og leyfa veiðar í allt að 15 daga. Í Stykkishólmi er að jafnaði 120 manns sem fá vinnu á gráslepputímanum og þar er komið að fimmtungur heildaraflans að landi undanfarin ár er grásleppa. Kvótakerfi í grásleppu er ekki svarið þar sem byggðasjónarmið vantar inn í kvótakerfið.

Það gefur augaleið að ofan í Covid-ástandið er þetta rothögg fyrir fjöldamargar litlar fjölskylduútgerðir sem margar hverjar halda lífi í byggðum landsins.
Það hefði átt að gefa þessari ákvörðun tíma, mæta henni með mótvægisaðgerðum eða endurmeta ráðgjöf.
Það er lágmark að þessir 15 dagar í Breiðafirði verði tryggðir. Smábátaútgerðir munu þurfa að snúa sér fyrr að strandveiðum en þar hefur heildaraflamarkið verið skert um 1.000 tonn og ásókn stóreykst í þetta kerfi við þá ákvörðun að loka fyrir grásleppuveiði.

Virðulegi forseti. Fordæmalausir tímar kalla á önnur sjónarmið og nýjar nálganir.“

DEILA