Prjónabíó á Patreksfirði

Á Patreksfirði er starfrækt mjög öflugt kvikmyndahús með góðu hljóðkerfi, nýjum græjum og alltaf nýjustu myndirnar, jafnvel sýndar sama dag og frumsýning.

Þeir sem halda utan um bíóið, sem eru Lionsmenn í sjálfboðavinnu, sýna mikinn metnað í myndavali og eru alltaf með puttann á púlsinum og bjóða upp á nýjustu myndirnar.

Sú nýjung var tekin upp í haust að bjóða upp á prjónabíó! Það er þannig að þá er einhver góð mynd valin, ný eða gömul og þegar sýning hefst eru ljósin aðeins dempuð en ekki slökkt.

Þeir sem mæta geta þá séð til að prjóna og það mega líka auðvitað allir koma þótt þeir séu ekki með prjónana með sér. Myndir sem hafa verið sýndar í prjónabíói eru m.a. Judy, Knives out, Little Women og svo jólamyndir um jólin. Næst er það Emma sem verður sýnd 1. apríl.

Þetta hefur virkað vel á heimafólk og þar sem húsið er með vínveitingaleyfi hefur verið boðið upp á m.a. hvítvín og líkjöra. Um jólin var boðið upp á jólaglögg og svo auðvitað heitt kakó við mikinn fögnuð bíógesta.

Kvikmyndahúsið heitir Skjaldborg og er einna þekktast fyrir heimildahátíð kvikmynda með sama nafni sem haldin er í þessu húsi ár hvert og hlaut Eyrarrósina í ár.

DEILA