Mikil ófærð á vegum

Flestir vegir á Vestfjörðum eru ófærir, en þó er fært á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og á milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar eins og er.

Vegirnir til Súðavíkur og Flateyrar eru lokaðir vegna snjóflóðahættu.

Um Gemlufallsheiði og Hálfdán og til Súgandafjarðar er ófært vegna veðurs en þæfingsfærð er á Mikladal.

Ófært er um Ísafjarðardjúp og Steingrímsfjarðarheiði og verður mokstur þar í fyrsta lagi á morgun ef veðurspá gengur eftir.

Á vefsíðu Vegagerðarinnar eru upplýsingar um færð skráðar kl. 8:00 – 16:00 á tímabilinu 1. maí til 31. október en kl. 7:00 til 22:00 frá 1. nóvember til 30. apríl, og birtast þar nánast um leið. Utan þessa tíma breytast þessar upplýsingar ekki og nokkru eftir miðnætti eru þær hreinsaðar út.

Gert er ráð fyrir að það dragi úr vindi í kvöld og nótt og spáð norðan 8-13 m/s og dálitlum éljum á morgun.

DEILA