ASÍ varar við verðhækkunum

Heimsfaraldur vegna Covid-19 hefur nú áhrif á atvinnu og afkomu fjölmargra heimila.

Alþýðusamband Íslands leggur ríka áherslu á að stjórnvöld, fjármálastofnanir og aðrir kröfuhafar komi til móts við fólk í þessum erfiðu aðstæðum. Öllu máli skiptir nú að tryggja afkomuöryggi heimila þannig að öllum sé kleift að setja eigin heilsu og annarra í forgang.

Ljóst er að opinberir aðilar, sveitarfélög, fjármálastofnanir, leigufélög, lífeyrissjóðir og aðrir kröfuhafar verða að sýna sanngirni og sveigjanleika varðandi greiðslufresti á meðan mesta óvissan stendur yfir.

Mikilvægt er að innheimtukostnaður og dráttarvextir verði ekki lagðir á vanskil og fólki gefist tækifæri til að dreifa greiðslum og lengja í lánum svo greiðslubyrði fari ekki úr hófi fram.

Alþýðusambandið telur með öllu óásættanlegt að kröfuhafar geti nýtt sér þá neyð sem blasir við mörgum heimilum við núverandi aðstæður.

ASÍ mun á næstunni fylgjast náið með þeim greiðsluerfiðleikaúrræðum sem boðið verður upp á og þeim þjónustugjöldum sem innheimt verða vegna þeirra.

DEILA