Áhrif manna á laxaseiði í Atlandshafi

Hver eru neikvæð áhrif athafna manna á lífsafkomu laxaseiða Atlantshafslax í ferskvatni er spurningin sem reynt verður að svara í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun föstudag.

Gestur í Vísindaporti vikunnar er fyrrverandi nemandi Háskólaseturs, Olivia Simmons og mun hún í erindi sínu kynna doktorsverkefni sem hún vinnur nú að.

Á heimsvísu hefur stofn Atlantshafslaxins (Salmo salar) í áratugi verið á hraðri niðurleið og eru ástæður fyrir þessari miklu fækkun líklega bæði margar og víxlverkandi.
Markmiðið með rannsókninni er að geta spáð fyrir um líkur á því að seiðin snúi aftur til uppeldisstöðva sinna. Notuð eru gögn úr langtíma vöktun frá ánni Frome í Englandi þar sem yfir 10.000 Atlantshafslaxar hafa verið merktir haust hvert í meira en áratug og er hluti þeirra endurheimtur í tengslum við göngurnar á vorin. Frekari upplýsingar um erindið má finna í samantekt á ensku.

Olivia Simmons er upprunalega frá Nýfundnalandi, Kanada, en býr núna í Englandi þar sem hún stundar doktorsnám í vistfræði. Er doktorsrannsókn hennar hluti af alþjóðlegu verkefni, SAMARCH-verkefninu, þar sem leitast er við að afla nýrra vísindalegra upplýsinga um Atlantshafslax (Salmo salar) og sjóbirting (Salmo trutta) til að auðvelda stjórnun á þessum tegundum á svæðunum í kringum Ermarsund.

Olivia lauk árið 2016 BSc-prófi í líffræði frá Memorial-háskólanum í Nýfundnalandi og MRM-gráðu í Haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða árið 2018.

Vísindaportið er opið öllum og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku.

DEILA