Vísindaport: Hvað gerir þetta fyrir mann? (Fjar)nám á fullorðinsárum

Gestur í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða er Jóna Benediktsdóttir og mun hún fjalla um fjarnám á háskólastigi á fullorðinsárum.
Í erindinu mun Jóna velta fyrir sér helstu þröskuldum sem fólk stendur frammi fyrir í náminu og þá jafnframt í lífinu á meðan á náminu stendur. Ef maður gefst ekki upp, hvað getur námið þá gefið manni, auk háskólagráðu?
Erindið er byggt bæði á rannsóknum sem Jóna hefur kynnt sér og á hennar eigin reynslu af því að vera í fjarnámi.

Vonast Jóna til þess að sem flestir fjarnemar láti sjá sig, fyrrverandi sem núverandi og taki þátt í umræðum og deili sinni reynslu af fjarnámi. Svo er upplagt fyrir þá sem stefna að fjarnámi í framtíðinni að mæta.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Jóna Benediktsdóttir er grunnskólakennari í grunninn, en bætti svo við mastersgráðu í sérkennslu og diplóma í stjórnun menntastofnana. Lengst af hefur hún starfað við Grunnskólann á Ísafirði, bæði sem kennari og aðstoðarskólastjóri. Jóna starfar nú sem skólastjóri í Grunnskólanum á Suðureyri.
Vísindaportið er opið öllum og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13.

DEILA