Prjónaðar karlmannsbuxur

Gegnum aldirnar hafa sjómenn, bændur og verkamenn notað síðar buxur enda hagkvæmar við þeirra störf. Þó má sjá karlmenn í hnésíðum buxum á nokkrum gömlum gripum sem varðveittir eru í Þjóðminjasafninu, bæði málaða og í ýmsum útskurði.

Ætla má að hnébuxur hafi verið í tísku á Íslandi sem og annarsstaðar í Evrópu frá 16. öld og fram til aldamótanna 1800, en á 19. öld fóru síðbuxur að ná meiri vinsældum og útbreiðslu.

Á Íslandi er afar lítið af fatnaði varðveitt frá fyrri öldum miðað við nágrannaþjóðirnar, einkum karlmannsflíkum. Buxurnar nr. 1163 eru sennilega frá fyrri hluta 19. aldar, þótt ekki sé vitað nákvæmlega hvenær þær voru saumaðar. Þeim er lýst af kostgæfni í Skýrslu Forngripasafnsins árið 1876: Karlmannsbuxur (-brók), prjónaðar, svartar, brugðnar, með 8,5 cm. breiðan vaðmálsstreng (brókarhaldi) og er hvítleitt ljereptsfóður undir honum. Á honum hafa verið 2 hnappar að framan nú aðeins annar á, og er sá steyptur úr kopar, með laglegu verki, þverm. 2,3 cm. Upphaldahnappar eru og 2 að framan og 2 að aptan og eru þeir steyptir úr tini. Við hnappagötin framan á streingnum hafa verið settar 11 og 16 cm. langar lykkjur. Framaná er 20 cm. breið og 14 cm. löng loka og nær hún upp að strengnum: er henni hnept á bæði efri hornin með sljettum látúnshnöppum, tinfyltum. þverm. 2 cm.

Ekki er vitað hvaðan buxurnar koma, en það var Sigurður málari Guðmundsson, fyrsti forstöðumaður Forngripasafnsins, sem fékk þær til safnsins. Sigurður var mikill áhugamaður um fatnað og íslenska búninginn, en hann rannsakaði forna búninga og teiknaði m.a. íslenska skautbúninginn. Sigurður var ástríðufullur safnari og markaði skýr spor með því að setja fram skrifaða söfnunarstefnu fyrir Forngripasafnið. Safnnúmerin Þjms. 1156-63 eru allt karlmannsflíkur, alíslenskar og virðast vera frá byrjun eða fyrri hluta 19. aldar. Í rannsókn sinni á íslenskum karlmannsfatnaði, telur Fríður Ólafsdóttir að buxurnar séu líklega frá tímabilinu 1790-1820, og að þær hafi sennilega verið ytri buxur sem gyrtar voru í sokka eða stígvél.

Prjónaðar karlmannabuxur eru gripur mánaðarins hjá Þjóðminjasafni Íslands.

DEILA