Íslenskunámskeiðin að fara af stað

Fyrstu íslenskunámskeið þessa árs erum komin á dagskrá og er búið að auglýsa 3 námskeið á Ísafirði.

Mánudaginn 20. janúar hefst Íslenska 4a en það er námskeið fyrir fólk sem hefur töluvert góða undirstöðu í málinu. Það er ekki oft sem Fræðslumiðstöðin hefur verið með námskeið fyrir fólk sem er svona langt komið í íslensku en nú virðist sem náist í hóp, sem er mjög ánægjulegt. Kennari á námskeiðinu er Emil Ingi Emilsson og verður kennt mánudaga og fimmtudaga kl. 17:30-19:30.

Miðvikudaginn 22. janúar er fyrirhugað að fara af stað með námskeiðið Íslenska 1a. Það námskeið er ætlað byrjendum eða þeim sem hafa mjög lítinn grunn í íslensku. Kennari er Sigríður Ásgeirsdóttir og verður kennt á mánudögum og miðvikudögum kl. 17:30-19:30.

Fimmtudaginn 23. janúar er Íslenska 2a á dagskrá. Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa dálítinn grunn í málinu, hafa t.d. lokið 60 kennslustundum á stigi 1. Kennari er Elísabet Guðmundsdóttir og verður kennt á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30-19:30.

Verið er að skoða með að koma af stað námskeiðum á fleiri stöðum á Vestfjörðum og verður það auglýst fljótlega.

Vakin er athygli á því að starfsfólk hjá ríki og sveitarfélögum sem eru í VerkVest eða Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur geta sótt íslenskunámskeið sér að kostnaðarlausu þar sem starfsmenntasjóðir þeirra greiða námskeiðin að fullu.
Aðrir starfsmenntasjóðir endurgreiða aðildarfélögum sínum stóran hluta þátttökugjalda. Eins og alltaf vill Fræðslumiðstöðin því hvetja fólk til þess að kanna möguleika á styrkjum til náms.

DEILA