Auglýst eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála

Innflytjendaráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála 2019-2020. Framlög til sjóðsins voru stóraukin í fyrra eða úr tíu milljónum í 25 milljónir króna og lögð sérstök áhersla á að veita styrki til verkefna í þágu barna og ungmenna í samræmi við málefnaáherslur Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Styrkupphæðin verður sú sama í ár og er áfram lögð sérstök áhersla á að veita styrki til verkefna sem tengjast börnum og ungmennum.

Hlutverk þróunarsjóðsins innflytjendamála er að efla rannsóknir og styðja þróunarverkefni á sviði málefna innflytjenda með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Við ákvörðun um styrkveitingar verður lögð áhersla á eftirfarandi:
Rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast börnum og ungmennum af erlendum uppruna.
Rannsóknar- og þróunarverkefni sem styrkja grasrótarsamtök innflytjenda og auka sýnileika þeirra og virkni í samfélaginu.

Rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast vinnumarkaðsmálum innflytjenda.
Önnur rannsóknar- og þróunarverkefni er varða málefni innflytjenda koma einnig til álita.
Með vísan í aðgerð A.5. í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016-2019 er sérstaklega óskað eftir umsóknum félags- og hagsmunasamtaka innflytjenda til þess að skipuleggja og standa fyrir innflytjendaþingi árið 2020. Markmið með innflytjendaþingi er að efla lýðræðislega þátttöku innflytjenda, efla samstarf félaga- og hagsmunasamtaka innflytjenda, áhrif þeirra á hagsmunamál sín og þátttöku þeirra í stjórnmálum.

Styrkir verða veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum. Félags- og hagsmunasamtök innflytjenda eru sérstaklega hvött til þess að sækja um. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsókna. Að þessu sinni verða sem fyrr segir 25 milljónir króna til úthlutunar og geta styrkir að hámarki numið 75% af áætluðum heildarkostnaði verkefnis. Unnt er að sækja um jafnt á íslensku og ensku.

DEILA