Aðventa lesin á Þingeyri

Nú í aðdraganda jóla lesa heimamenn á Þingeyri upphátt bók allra jóla, skáldsöguna Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson.
Lesturinn fer fram í Kómedíuleikhúsinu að Vallargötu 3 á Þingeyri og hefst kl. 14.14 laugardaginn 14 desember.

Gunnhildur Elíasdóttir hefur lesturinn og svo tekur hver lesarinn við af öðrum en alls verða lesararnir 7 talsins.
Lesturinn tekur um tvö og hálfan klukkutíma og erum gestum velkomið að koma og fara á þeim tíma sem þeim hentar.
Boðið verður upp á heitt súkkulaði og smákökur meðan á lestrinum stendur.
Engin aðgangseyrir og allir einlæglega velkomnir.
Komum saman á leikhúseyrinni og hlustum á þessa einstöku jólasögu.

Um söguna:
Aðventa ljómar af þeim dimma og bjarta eldi sem kviknar af neistafluginu þegar veruleika og skáldskap er slengt saman, því að aðalpersónan Benedikt og leit hans að kindum uppi á öræfum í grimmasta mánuði íslensks vetrar eiga rætur sínar í veruleikanum.

Engin bók Gunnars hefur farið jafn víða um lönd og Aðventa sem hefur verið þýdd á um 20 tungumál.

Sagan er einföld á yfirborðinu, ekki flókin þegar því sleppir, heldur djúp og frjósöm. Stíll Gunnars er hvergi jafn látlaus og blátt áfram fallegur eins og í Aðventu.

DEILA