500 milljónir til Loftslagssjóðs – opnað fyrir umsóknir

Alls verður um 500 milljónum króna varið til Loftslagssjóðs á fimm árum og þar af verða 140 milljónir króna til ráðstöfunar í fyrstu úthlutun. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Loftslagssjóð en stofnun hans er ein af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum.

Um er að ræða nýjan samkeppnissjóð sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra og hefur ráðherra falið Rannís umsjón með honum. Öllum er heimilt að sækja um í sjóðinn og er opið fyrir umsóknir til 30. janúar n.k.

„Til að takast á við loftslagsvána þurfum við margs konar lausnir og við þurfum nýsköpun til þess“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við höfum lagt mikla áherslu á nýsköpun.“

Boðið er upp á tvær styrktegundir og eru styrkir veittir til eins árs. Annars vegar er um að ræða styrki til kynningar og fræðslu um loftslagsmál og getur styrkupphæð verið allt að 5 milljónir króna. Hins vegar er um að ræða styrki til nýsköpunarverkefna en þeim er m.a. ætlað að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun. Nýsköpunarstyrkir geta verið allt 10 milljónir króna og numið allt að 80% af kostnaði verkefnis.

Stjórn Loftslagssjóðs skipar fagráð sem metur styrkhæfi umsókna. Meðal þess sem haft verður til hliðsjónar eru jákvæð áhrif verkefnisins á loftslag, hvort það hafi jákvæð samfélagsleg áhrif, nýnæmi verkefnisins og hvort það muni nýtast víða í samfélaginu.

Á heimasíðu Rannís má nálgast allar nánar upplýsingar um Loftslagssjóð, úthlutunarreglur og umsóknareyðublöð. Ítarleg handbók Loftslagssjóðs hefur auk þess verið sett á netið.

DEILA