Sameining Taflfélags Bolungarvíkur og Skákdeildar Breiðabliks

Taflfélag Bolungarvíkur og Skákdeild Breiðabliks hafa ákveðið að sameinast undir nafninu “Skákdeild Breiðabliks og Bolungarvíkur”.

Taflfélag Bolungarvíkur á sér langa sögu og er m.a. fjórfaldur Íslandsmeistari skákfélaga (2009-2012). Í dag er aðalstarfsemi félagsins þátttaka sveitar í 1.deild Íslandsmóts skákfélaga með Norðurlandameistarann Jóhann Hjartarson og fyrrverandi heimsmeistara sveina Jón L Árnason í broddi fylkingar.

Skákdeild Breiðabliks er þriggja ára og rekur öflugt barna og unglingastarf í Stúkunni við Kópavogsvöll. Skákdeildin stendur fyrir ýmsum mótum t.d. Gestamótinu og Elítukvöldunum í samvinnu við Taflfélagið Huginn og skólamót Kópavogs í samvinnu við skákkennara í Kópavogi. Breiðablik er með tvær sveitir í ÍS, önnur í þriðju deild og hin í þeirri fjórðu.

Tilgangur sameiningarinnar er að auka breidd, styrk, nýliðun og fjölbreytileika beggja aðila í nýju og spennandi samstarfi.
Sérkenni hvers aðila mun haldast og það góða starf sem bæði félögin standa fyrir.
Nýtt félag mun senda sameiginlegt lið í Íslandsmót skákfélaga og stefnt er að því að fjölga sveitum þess í fjórar á næstu árum.
Það er sýn beggja aðila að hið nýja félag verði spennandi vettvangur fyrir gróskumikið starf þar sem reynsla og æska koma saman.

DEILA