Rannsóknir á ferðum þorskseiða

Nú í haust hefur Anja Nickel, doktorsnemi hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum, hafið rannsóknir á ferðum þorsk- og ufsaseiða í náttúrunni. Verkefnið er hluti af stærri rannsókn setursins á þorskseiðum undir stjórn Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur forstöðumanns setursins. Í þessum fyrsta áfanga verkefnisins hefur kerfi hljóðdufla verið komið fyrir í Seyðisfirði og seiði verið merkt með samsvarandi hljóðmerkjum. Hljóðduflin liggja botnlægt, eða u.þ.b. einn metra frá botni. Þegar seiðin fara framhjá dufli skráir það merki hvers seiðis rafrænt og þannig næst nokkuð nákvæm skráning á ferðum seiðanna um fjörðinn.

Það krefst smávægilegrar skurðaðgerðar að koma merkjunum fyrir í kviðarholi seiðanna en forrannsókn á áhrifum aðgerðarinnar og merkjanna á nokkur þorskseiði sýndi að seiðin þola merkinguna vel og sárið grær á örfáum dögum. Smæð hljóðmerkjanna er auðvitað forsenda fyrir þessarri rannsókn en þetta er í fyrsta skipti hér á landi þar sem þorskfiskseiði eru merkt á þennan hátt og líklega í fyrsta rannsóknin á heimsvísu þar sem þorskfiskseiði á öðru ári eru merkt með hljóðmerkjum. Þau hljóðmerki sem eru notuð í rannsókninni eru líka þeim eiginleikum gædd að breyta um merki ef seiðið er étið af stærri fiski en upplýsingar um afrán seiðanna eru bæði áhugaverðar og auka áræðanleika gagnanna til muna.

Aðrar upplýsingar sem munu koma fram með þessarri rannsókn er t.d. hvort og hvenær seiðin færa sig utar og á meira dýpi þegar sjórinn kólnar og hvaða svæði, t.d. með tilliti til botngerðar og dýpis, þau nota helst til fæðunáms. Þá verður áhugavert að sjá mun á svæðisnýtingu þorsk- og ufsaseiða.
Verkefnið í haust er nokkurra vikna forverkefni sem hófst í lok október en ef vel tekst til er stefnt að viðameiri rannsókn á næsta ári þar sem seiðamerkingar munu byrja síðsumar og fylgst verður með ferðum seiðanna yfir fjögurra til fimm mánaða tímabil.
Rannsóknir með hljóðmerkingum eru ört vaxandi fræðasvið víða um heim en með þeim má fá nákvæm gögn um ferðir og dreifingu fiska í stað þess að meta þessa þætti með veiðum. Auk þess má meta áhrif breytinga í umhverfi, s.s. hitastigi, á ferðir og dreifingu fiska. Vestfirskir firðir henta einstaklega vel til slíkra rannsókna t.d. vegna aðgengis, sjólags og fjölbreytileika í umhverfisþáttum svo sem dýpis.

DEILA