Nýtt gallerý á Þingeyri

Að Veturnóttum liðnum var opnað nýtt og algjörlega einstakt gallerý á Þingeyri. Þessi nýji krói í listagallerý Vestfjarða nefnist Grásteins gallerý enda til húsa í Grásteini á Þingeyri við Aðalstræti 23. Þetta nýja sýningarrými er um margt mjög sérstakt þar sem sýnd eru verk einstakra listahjóna á Þingeyri. Þeirra Guðmundu Jónu Jónsdóttur og Gunnars Guðmundssonar frá Hofi Dýrafirði. Víst fóru þau sínar eigin leiðir í listinni og má víst segja þau einfara í vestfirskri myndlistarsögu. Alls eru yfir 100 verk eftir þau listahjón frá Hofi til sýnis í Grásteins gallerý. Mikill fjöldi gesta mætti á opnunina á Veturnóttum í lok síðasta mánaðar. Grásteins gallerý er opið árið um kring og ávallt þegar einhver er heima við á Grásteini. Heimamenn og gestir Dýrafjarðar geta því notið listar þessara einstöku listahjóna reglulega og víst er sjón sögu ríkari.

Listahjónin
Guðmunda eða Munda einsog hún var oftast nefnd fór á undan í myndlistina. Var þá komin vel yfir miðjan aldur þegar sá galdur greip hana. Vel má segja að Munda hafi verið náttúrulistamaður í öllum merkingum þess orðs. Hún vann með efni náttúrunnar í verkum sínum sem og túlkaði hana í list sinni. Í fjöruna sótti hún jafnan sinn efnivið í formi skelja, sands, kalkþörunga og margs konar gersema er fjaran sífellt veitir og um leið endurnýjar. Á vinnustofunni á Hofi var svo tekið til við að listast með efniviðinn. Ferlið fólst oft í því að vinna efni fjörunnar og náttúrunnar til. Þá var gott að hafa mortel til að mylja skeljar sem önnur fjörugersemi. Barnabörn hennar muna mörg eftir því að hafa hjálpað ömmu sinni við þessa iðju. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft því mörg þeirra hafa einmitt fetað listaveginn. Nægir þar að nefna Vilborgu Davíðsdóttur, skáldkonu, og Marsibil G. Kristjánsdóttur, fjöllistakonu.
Listin tengdi sannlega þau Mundu og Gunnar. Loks árið 1970 þegar hann varð 72 ára gaf hann sér tíma til að mála. Gaman er að geta þess að fyrsta mynd hans hefur varðveist þó engu hafi munað að hún hafi orðið ruslinu að mat. Verkið fannst nefnilega á ruslahaugunum á Þingeyri meðan enn voru ruslahaugar þar. Sem betur fór kom glöggur listunnandi á undan ruslaföngurunum. Viðkomandi var að fara með rusl á haugana einsog þá tíðkaðist. Þegar þangað var komið greip hangandi listaverk strax athyglina. Listaverkið hékk utan á ruslagámum. Einhverra hluta vegna vildi hendarinn ekki alveg henda því alla leið. Þó honum hafi fundist verkið ekkert merkilegt þá væri nú kannski einhver sem mundi fíla þetta. Smekkur manna er jú misjafn og allt það. Nema hvað sá sem að kom var einmitt sá rétti sem kom verkinu í hendur barnabarns listahjónanna og þess sem hér ritar. Þetta verk er sannlega fyrsta málverk Gunnars því aftan á það hafði hann ritað: Firsta (já með einföldu breytum því ekkert hér) málverkið sem ég málaði 1970.

DEILA