Ný bók: Gústi guðsmaður

Hjá bókaútgáfunni Hólar ehf er komin út bókin Gústi alþýðuhetjan fiskimaðurinn og kristniboðinn eftir Sigurð Ægisson.
Guðmundur Ágúst Gíslason eins og hann hét fullu nafni kom í þennan heim 29. ágúst árið 1897. Foreldri hans voru bæði Dýrfirðingar, Sveinbjörg Kristjánsdóttir, 33 ára, ættuð úr Hvammi í Þingeyrarhreppi, skammt fyrir innan kauptúnið, og Gísli Björnsson, þá 36 ára, fæddur á Botni í Mýrahreppi. Þau höfðu gengið í hjónaband 14. október 1886, en þegar Guðmundur Ágúst fæðist eru þau tekin við búsforráðum á arfleifð hennar. Og þar fæðist drengurinn. Gústi ólst síðan upp í Hnífsdal og á Ísafirði og fór víða og stundaði mest sjómennsku. Þekktastur verður hann svo fyrir útgerð sína á Siglufirði og þar hefur verið reist af honum stytta og nú hefur sóknarprestur Siglfirðinga Sigurður Ægisson skrifað um hann veglega bók sem er afrakstur tveggja áratuga heimildasöfnunar

Gústi guðsmaður er að líkindum þekktasti sjómaður 20. aldar, að öðrum ólöstuðum. Hann var orðinn hálfgerð þjóðsagnapersóna meðan hann lifði og ekki dró úr því eftir að hann lést. Hann þekkti hafið eins og fingurna á sér og óttaðist ekkert af því að hann var að eigin sögn aldrei einn. Guð var þar líka. Gústi var annálað hraustmenni, kjarnyrtur og bölvaði út í eitt og ragnaði, en betra hjarta var ekki til. Hann studdi fátæk börn úti í heimi til náms og gaf til þess nánast allt sem hann aflaði á litlu trillunni sinni. Hann var engill í dulargervi. Þetta er saga hans.

DEILA