Leikfélag Hólmavíkur sýnir Saumastofuna

Leikfélag Hólmavíkur frumsýndi í síðustu viku leikritið Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson undir leikstjórn Skúla Gautasonar í Félagsheimilinu á Hólmavík við mjög góðar undirtektir áhorfenda.

Næsta sýning er á Hólmavík annað kvöld (fimmtudag) kl 20 og síðan eru fyrirhugaðar sýningar á Logalandi í Borgarfirði á laugardag og í Dalabúð Búðardal á sunnudag. Einnig hefur verið ákveðin jólasýning í Félagsheimilinu á Hólmavík 27 desember.

Leikfélag Hólmavíkur er virkt áhugaleikfélag, en það var stofnað 3. maí árið 1981 og hefur síðan þá sett upp á nærri hverju einasta ári að minnsta kosti eina leiksýningu og stundum fleiri. Leikfélag Hólmavíkur er einnig þekkt fyrir það að vera einstaklega duglegt að fara í leikferðalög með sýningar sínar vítt og breitt um landið, sem er siður sem er hægt og bítandi að deyja út hjá áhugaleikfélögum landsins. Leikfélagið gerir svo fleira en að setja upp leiksýningar, en á þeirra vegum eru til að mynda námskeið, viðburðir og margvísleg atriði á annars stærri viðburðum og hátíðum. Leikfélagið vinnur einnig reglulega verkefni í samstarfi við aðra, svo sem Grunnskólann á Hólmavík, sem vekur mikla lukku. Svo hafa leikfélagar leikið í kvikmyndum, gert útvarpsþátt, staðið fyrir sprelli á hátíðisdögum, samið leikrit, sungið og dansað. Möguleikarnir til að gera skemmtilega hluti í leikfélagi er vægast sagt óendanlegir og bæði þátttakendur og áhorfendur njóta góðs af.

DEILA