Ísafjarðarbær: Fasteignagjöld

Tillaga um breytingu á álagningu fasteignagjalda í Ísafjarðarbæ árið 2020 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær og er um töluverða breytingu frá fyrra ári að ræða.

Breytingin er liður í aðgerðum vegna lífskjarasamninga þar sem sveitarfélögin eru hvött til að hækka gjöld að hámarki 2,5%, en minna ef verðbólga er lægri.

Breytingin felur það í sér að að vatnsgjald á íbúðarhúsnæði verði lækkað úr 0,21% í 0,10% og holræsagjald á íbúðarhúsnæði verði lækkað úr 0,25% í 0,2%. Með því móti er dregið úr hækkun á fasteignagjöldum og verður hún því aðeins um 2,24% á árinu 2020, ef sorpgjöld eru undanskilin.

Ljóst er að þessi breyting hefur mismunandi áhrif á ýmsum svæðum í Ísafjarðarbæ, þannig lækka fasteignagjöld um allt að 5-10 % á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri, en hækka um 4-5% í Sunnuholti, Hafraholti og Seljalandi á Ísafirði og hækkun fasteignagjalda verður 15% við Aðalstræti á Ísafirði.

DEILA