Drangsnes: Styrkur til verslunar í strjálbýli

Drangsnes.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 14,9 milljónum króna úthlutað til verslunar í strjálbýli fyrir árin 2019 og 2020 en alls voru gefin fyrirheit um styrki að upphæð 20,6 milljónum króna á árunum 2019-2021. Samningar vegna styrkjanna verða undirritaðir á næstu dögum.
Markmið með framlögunum er að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar. Framlögin eiga að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, til dæmis með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu.
Þær verslanir sem fengu úthlutun í ár eru á Bakkafirði, Borgarfirði eystri, Ásbyrgi, Stöðvarfirði, Kópaskeri og Drangsnesi.
Um verslunina á Drangsnesi segir í tilkynningu ráðuneytisins: Umsækjandi er óstofnað félag um rekstur verslunar. Samþykkt hefur verið að styrkja verkefnið um 4,8 m.kr. eða 2 m.kr. árið 2020 og 2,8 m.kr. árið 2021. Styrkurinn er háður því skilyrði að gögn liggi fyrir eða samningur og að Kaupfélagið loki verslun á Drangsnesi.
Samkvæmt upplýsingum Viktoríu Ránar Ólafsdóttur kaupfélagsstjóra á Hólmavík hefur, vegna langvarandi hallarekstur, verið ákveðið að loka versluninni á Drangsnesi og verður síðast opnunardagur 29. nóvember. Hún segir ákvörðunina þungbæra og í raun algjört neyðarúrræði en vonast jafnframt til að vel takist til hjá heimamönnum og óskar þeim góðs gengis.

DEILA