Staða sjúkraflugs óviðunandi

Í gær birtist í Morgunblaðinu grein eftir bæjarfulltrúana Hafdísi Gunnarsdóttur á Ísafirði og Hildi Sólveigu Sigurðardóttur í Vestmannaeyjum þar sem þær gera grein fyrir óviðunandi stöðu sjúkraflugs.
Þar kemur fram að aðeins ein flugvél annist sjúkraflug fyrir allt landið og að hún sé staðsett á Akureyri. Ef vélin er í notkun þegar tilkynning um bráðatilfelli kemur getur viðbragðstími verið tæpar tvær klukkustundir. Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun birti 2016 gagnrýndi hún seinagang sem ríkt hefur og það samskiptaleysi sem er á milli þeirra ráðuneyta sem í hlut eiga. Þær segja en fremur að ríkið hafi á undanförnum árum dregið mjög úr sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni sem samfara mikilli aukningu ferðamanna hafi leitt til þess að sjúkraflug hafi aukist mjög á undan förnum árum.
Í samtali við Hafdísi Gunnarsdóttur kom skýrt fram að krafa Vestfirðinga sé að þegar í stað verði unnið að úrbótum. Ljóst sé að núverandi fyrirkomulag sjúkraflugs er ekki nóg til að tryggja öryggi fólks á Vestfjörðum. Þurfa stjórnvöld að tryggja aðkomu Landhelgisgæslunnar að almennu sjúkraflugi og staðsetja sérútbúnar sjúkraþyrlur á landsbyggðinni, þar á meðal á Vestfjörðum. Svona stórt öryggismál á að vera sjálfsögð krafa íbúa og gesta á Vestfjörðum.

DEILA