Jöfnunarsjóður- Framlög til Vestfjarða

Vestfirðir.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga og hefur starfað óslitið síðan 1937. Við breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga árið 1990 fór fram umtalsverð endurskoðun á starfsemi sjóðsins er fólst einkum í því að jöfnunarhlutverk hans var stóraukið. Auk þess voru sjóðnum falin tiltekin verkefni til að greiða fyrir breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og stuðla að sameiningu sveitarfélaga. Helstu breytingar, sem gerðar hafa verið á sjóðnum síðan, tengjast yfirfærslu alls grunnskólakostnaðar frá ríki til sveitarfélaga þann 1. ágúst árið 1996 og yfirfærslu málefna fatlaðs fólks 1. janúar 2011.
Áætlun um úthlutun fyrir árið 2020 hefur nú verið birt á vef Stjórnarráðs Íslands. Þar kemur fram að framlögunum er skipt í sex flokka, fasteignaskattsframlag, útgjaldajöfnunarframlög, almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla, framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda, framlög vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál og framlög vegna fatlaðs fólks. Auk þessa greiðir Jöfnunarsjóður út sérstök framlög, bundin framlög og framlög til tímabundinna verkefna.
Stærst flokkur jöfnunarsjóðsframlaga er útgjaldajöfnunarframlög en þar er tekið tillit til þátta eins og skólaakstur, snjómoksturs, fjölda þéttbýlisstaða íbúafjölda og fleira. Framlög til sveitarfélaga á Vestfjörðum úr þessum flokki eru samtals 1,108 milljónir þar af fær Ísafjörður 454 milljónir, Vesturbyggð 170 milljónir, Strandabyggð 139 milljónir, Reykhólahreppur 118 milljónir, Bolungarvík 108 milljónir, Súðavík 73 milljónir, Tálknafjörður 28 milljónir og Kaldrananeshreppur 18 milljónir. Árneshreppur fékk ekki framlag úr þessum flokki jöfnunarsjóðsframlaga.

DEILA